07/02/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 7. 2.2018
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Í nýrri könnun eins virtasta markaðsfyrirtækis landsins mælist íslensk verslun með 67% traust íslensku þjóðarinnar. Til hamingju verslunarmenn, til hamingju Íslendingar.
Sjálfstæðisbaráttan tengdist verslun
Það er mikilvægt hverri atvinnugrein að starfa í sátt og samlyndi við samfélag sitt. Íslensk verslun hefur um aldir verið nátengd hagsmunum þjóðarinnar, enda var það eitt af stóru hagsmunamálunum í sjálfstæðisbaráttu okkar, að verslunin kæmist í okkar eigin hendur. Sú barátta stóð lengi og var að lokum farsællega til lykta leidd af sjálfstæðishetjum okkar, eins og svo vel er lýst í því stórkostlega ritverki “ Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900 – 2010”, sem nýlega kom út.
Samfélagsmiðlar gefa rödd
Fullyrða má að fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafn óvæga gagnrýni og verslunin hefur mátt sæta, og hefur verslunin margoft verið skotspónn þeirra sem hafa séð sér hag í því að tortryggja hana. Nú í seinni tíð hefur almenningur fengið rödd í gegnum samfélagsmiðlana. Virðist sú umræða vera að ná jafnvægi og snúast meira um neytendavernd, þjónustu og upplýsta umræðu sem verslunin fagnar. Það vita allir sem reynt hafa hversu erfitt getur verið að rísa undir gagnrýni sem þessari. Íslensk verslun hefur hingað til staðið allt slíkt af sér og það er engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.
Tæplega 70% traust
Það er sérstakt ánægjuefni að finna hversu mikillar velvildar íslensk verslun nýtur núna meðal þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi umræðunnar. Í fyrrgreindri könnun kemur fram að um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi. Þessi niðurstaða er mjög ánægjuleg, ekki síst í því ljósi þess að opinber umræða um atvinnugreinina var óneitanlega fremur neikvæð á s.l. ári. Að finna að verslunin nýtur svo mikils trausts og velvildar hjá þjóðinni er greininni mikil hvatning til þess að gera enn betur.
Sóknarhugur á tíma breytinga
Íslensk verslun er í sóknarhug. Framundan eru miklar áskoranir í síbreytilegu umhverfi, umhverfi sem tekur meiri og hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Íslensk verslun er staðráðin í því að aðlaga sig að þessum breytingum, vera áfram öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi og halda áfram að þjóna vel kröfuhörðum neytendum. Þannig gerum við betur, þannig eflist íslensk verslun og þannig höldum við þessu öfluga trausti Íslendinga – okkur öllum til hagsbóta.
Blaðagrein 7.2.2018 – Íslensk verslun nýtur trausts
05/02/2018 | Fréttir, Verslun
Póstyfirvöld í Svíþjóð – Postnord og sænsk tollayfirvöld voru ekki sammála um hverjir væru ábyrgir fyrir því að innheimta virðisaukaskatt af vörum sem Svíar kaupa í netverslun frá Kína. Vegna þessa er talið að sænska ríkið hafi farið á mis við milljarða sænskra króna vegna tapaðra skatttekna.
Komið hefur í ljós að tollayfirvöld hafa látið þetta viðgangast því fjöldi póstsendinga er það mikill að kerfið ræður ekki við að innheimta virðisaukaskatt af öllum þeim vörum sem berast. En engu að síður er þetta brot á tollareglum og því hefur verið gagnrýnt að Postnord, sem er að hluta til í eigu sænska og danska ríkisins, komist upp með að innheimta ekki skattinn fyrir ríkið. Postnord hefur borið fyrir sig að vörur sem kosta undir 22 Evrur beri ekki virðisaukaskatt. Nú er orðið ljóst að ábyrgðin liggur hjá Postnord.
Umfjöllun í sænskum fjölmiðlum:
https://www.expressen.se/dinapengar/konsument/beskedet-ska-bli-dyrare-handla-pa-wish/
http://sverigesradio.se/sida/artikel.aspx?programid=83&artikel=6844295
https://www.svt.se/nyheter/inrikes/postnord-infor-avgift-pa-paket-fran-kina
15/11/2017 | Fréttir, Verslun
Íslensk verslun í tölum er sérsniðinn gagnagrunnur um stærð og þróun íslenskrar verslunar. Grunnurinn er sérstaklega ætlaður þeim sem reka verslanir og/eða hyggja á stofnun nýrra verslana. Hér er bæði hægt að fá greinargott yfirlit yfir ytri forsendur fyrir verslunarrekstri eins og greining á neyslu Íslendinga og innri forsendum eins og stöðu og þróun einstakra tegunda verslunar, launum, starfsmannafjölda o.s.frv. Þá er í þessum gagnagrunni lýsing á lýðfræðilegum þáttum sem hafa m.a. áhrif á staðsetningu og tegund verslana eftir landssvæðum.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur síðastliðinn áratug gefið út á hverju ári Árbók verslunarinnar – Hagtölur um íslenska verslun. Gagnagrunnurinn, sem hér er birtur, tekur við hlutverki Árbókarinnar með þeirri breytingu að upplýsingar birtast rafrænt og eru uppfærðar reglulega, eða jafnskjótt og nýjar opinberar hagtölur birtast. Flestar hagtölur sem byggt er á, eru unnar úr opinberum gögnum eins og frá Hagstofu Íslands en einnig er byggt á upplýsingum og samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar auk gagna frá hagsmunasamtökum og öðrum þeim sem taka saman gögn um stöðu og þróun verslunar. Upplýsingar úr rafrænum upplýsingakerfum uppfærast sjálfkrafa inn í gagnagrunninn sem hér er kynntur. Aðrar tölur eru ýmist uppfærðar ársfjórðungslega eða árlega þar sem það á við.
Hér má nálgast gagnagrunninn.
18/10/2017 | Fréttir, Greiningar, Verslun
Svíar eru fyrirferðamestir í netverslun í Skandinavíu
Með því að kanna umfang viðskipta í Skandinavíu við erlendar netverslanir má fá almenna hugmynd um styrkleika innlendrar verslunar í löndunum. Ef hlutfall þeirra neytenda sem stunduðu netviðskipti í Skandinavíu á fyrri helmingi ársins 2017 er skoðað kemur í ljós að í Svíþjóð höfðu hlutfallslega flestir verslað á netinu eða um 65% neytenda. Þrátt fyrir að Svíar kjósi í meira mæli að beina viðskiptum sínum í gegnum netið þá kaupa Svíar í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar hafa hæst hlutfall viðskipta við erlenda netverslun. Ástæða þessa er m.a. sú að fjöldi af sænskum netverslunum starfa í hagstæðu og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi á víðtækum grunni. Sænsk netverslun nær því að skapa sér hagstæða stöðu á þessu sviði, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals og með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður. Mikilvægt er að læra af reynslu Svía og útfæra svipaðar lausnir hér á landi m.t.t. hagsmuna neytenda. Að endingu má benda á að Svíar og Finnar hafa dregið úr kaupum bóka og kvikmynda erlendis frá en því má þakka hagstæðu verði og góðum afhendingarmöguleikum innanlands. Annar þáttur í þessu er að alþjóðlegir aðilar ná ekki að markaðssetja vöruna á tungumálum landanna.
Skýrsluna má nálgast hér.
16/10/2017 | Fréttir, Verslun
Birt á visir.is 16.10.2017
„Það er tilgangslaust að fella niður tolla og vörugjöld, verslunin skilar slíku aldrei til neytenda“. Þessa setningu og margar aðrar í svipuðum dúr hefur oft mátt lesa í fjölmiðlum undanfarin ár, eða allt frá því að áform þáverandi stjórnvalda um afnám almennra vörugjalda og tolla voru kunngjörð haustið 2014. Það var svo sem ekki í fyrsta sinn sem verslun á Íslandi mátti sæta ásökunum í þessa veru, en segja má að slíkt hafi verið viðtekin venja tiltekinna afla, þegar skattkerfinu hefur verið breytt á þann veg að neytendur skyldu njóta ábatans.
Þeir eru margir pólitísku lukkuriddararnir sem hafa reynt að slá keilur með því að tortryggja verslunina í þessum efnum og þar með allan þann stóra hóp fólks sem starfar innan þeirrar mikilvægu atvinnugreinar. Þá hafa sum hagsmunasamtök bæði launþega og neytenda ekki látið sitt eftir liggja, en þau hafa hvað eftir annað sett fram fullyrðingar á opinberum vettvangi, þar sem sömu eða svipaðar ávirðingar eru settar fram.
Í þessu efni hefur það litlu sem engu breytt þó að ítrekað hafi verið skýrt út með opinberlega staðfestum gögnum, að niðurfelling vörugjalda og niðurfelling tolla hafi skilað sér til neytenda, í formi lægra vöruverðs. Þeir eru nefnilega ótrúlega margir sem setja sannleikann í annað sæti þegar þeir sjá sér hag í slíku. En sem betur fer kemur hið rétta oftast í ljós að lokum.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur nú birt skýrslu sína „Áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag“, en skýrsla þessi er, eins og nafnið bendir til, samantekt þessarar virtu stofnunar á áhrifum umræddra skattkerfisbreytinga sem komu til framkvæmda í áföngum á tímabilinu 2015 til 2017. Í ályktunarorðum skýrslunnar, sem eru jafnframt lokaorð hennar segir: „Í stuttu máli lækkaði smásöluverð þeirra vara sem hér voru til skoðunar um leið og fyrirkomulagi neysluskatta var breytt. Svo virðist sem lækkun gjalda hafi að mestu skilað sér í vasa neytenda. Álagning kaupmanna lækkaði á flestum vörum í krónum talið“.
Nú verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir sem fyrr voru nefndir og hæst hafa látið gagnvart versluninni, bregðast við. Munu þeir halda áfram á sömu braut og fyrr, eða munu þeir sjá að sér og viðurkenna að kannski hafi ekki verið innistæða fyrir þeim öllum hástemmdu yfirlýsingunum sem fallið hafa?
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Greinin til útprentunar.
20/09/2017 | Fréttir, Menntun, Verslun
Um áramótin munu Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst bjóða upp á nýtt nám. Markmiðið er að bjóða upp á valkost í námi fyrir þá sem vilja mennta sig í verslun og þjónustu og vilja jafnvel halda áfram í háskólanám í framhaldi en námið verður metið áfram í námi til BS gráðu í viðskiptafræði í báðum skólum.
Námið, sem verður 60 ECTS einingar, verður nám með vinnu og mun taka tvö ár í dreifinámi. Það byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræði við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunar og þjónustu í huga með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Námið byggir að auki á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra og viðhorfskannana meðal starfandi verslunarstjóra. Styrkur námsins liggur í nánu samstarfi við atvinnulífið og samstarfi háskólanna tveggja um þróun námsins og kennslu.
Almenn inngönguskilyrði verða stúdentspróf eða sambærilegt nám en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Stefnt er að því að fyrirtæki velji nemendur úr starfsmannahópum sínum inn í námið en aðrir munu einnig geta sótt um námið.
Það er mikið fagnaðarefni að slíkt nám verði valkostur. Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna veltu. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt VR gerðu könnun meðal verslunarstjóra í vor um menntun og þeirra menntunarþörf. Þar kom í ljós að þörf er á námi sem þessu, en 56% telja sig hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir menntun, þjálfun eða fræðslu í tengslum við núverandi starf. Jafnframt kom fram að meirihluti verslunarstjóra, eða hátt í 70%, telja sig hafa mjög eða frekar lítil tækifæri til endurmenntunar.
Slíkur valkostur á fagháskólastigi er því fagnaðarefni.