Verkin vega þyngra en orðin

Verkin vega þyngra en orðin

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Kjarnann í dag, föstudaginn 20. desember:

Við lestur greinar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) skrifaði í Kjarnann í gær kemst maður ekki hjá því að álykta sem svo að hann hafi fundið til sviða við lestur greinar minnar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Meðal annars sakar framkvæmdastjórinn mig um „að skrifa gegn betri vitund“, fara með „rökleysu“ og jafnvel aðhyllast lagabreytingar sem muni leiða af sér vöruskort. Í greininni reifar framkvæmdastjórinn efni umsagna FA um umrætt lagafrumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og bendir á eitt og annað sem þar hafi komið fram máli sínu til stuðnings.

Hugsanlega var meginefni greinar minnar frá 19. desember sl. ekki nógu skýrt í huga framkvæmdastjórans og því tel ég rétt að koma útskýringu á framfæri.

Það ætti öllum að vera ljóst að breytingar á regluverki sem snertir búvöruframleiðslu með einum eða öðrum hætti eru viðkvæmar og erfiðar viðfangs. Hagsmunir bænda og búgreina njóta jafnan ríks stuðnings meðal þingmanna. Af þeim sökum hafa verið tekin afar stutt skref í átt sem gagnast gæti neytendum. Það er ekki annað hægt en að ætla að þessu hafi framkvæmdastjórinn gert sér grein fyrir.

Það væri hægt að eyða mörgum orðum í umfjöllun um hvort mikill munur sé á afstöðu FA og SVÞ til einstakra atriða lagafrumvarps ráðherra. Til að mynda lýstu SVÞ einnig efasemdum um niðurstöðu starfshóps um úthlutun tollkvóta landbúnaðarráðherra og töldu tillögu fulltrúa Neytendasamtakanna mun betri en sú sem endaði í frumvarpinu. Þá hafa SVÞ jafnframt lýst því yfir að árstíðarbundin og föst úthlutun tollkvóta fyrir tilteknar vörur gæti ekki orðið óbreytanleg og varanleg lausn. Slík umfjöllun eða samanburður mundi hins vegar ekki bæta neinu við. Ástæðan er sú að grundvallarmunurinn á afstöðu SVÞ og FA til lagafrumvarps ráðherra birtist einfaldlega ekki í umsögnum eða annarri opinberri umfjöllun heldur í gjörðum FA. Þrátt fyrir að FA hafi, líkt og SVÞ, síst talið frumvarpið gallalaust viðurkennir framkvæmdastjórinn það beinlínis í grein sinni að neytendur munu hið minnsta njóta tímabundins ávinnings af því breytta útboðsfyrirkomulagi tollkvóta sem nú hefur verið lögfest. SVÞ taldi að með því væri stigið skref í rétta átt þó vissulega hefði skrefið mátt vera annað og stærra. Umsögn FA um frumvarpið verður í ljósi greinar framkvæmdastjórans ekki skilin öðruvísi en að félagið hafi alfarið hafnað því skrefi. Lokahnykkinn rak FA svo  með þátttöku í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóranum gat ekki dulist að mundi valda vatnaskilum. Enda fór svo að meiri hluti atvinnuveganefndar setti fram tillögur sem styttu skrefið enn meira en ráðherra lagði upp með. Við það tilefni gaf framsögumaður málsins, alþingismaðurinn Halla Signý Kristjánsdóttir frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

„[…] undirrituð fullyrðir að þær gagnrýniraddir sem bárust frá ólíkum hagsmunasamtökum bænda, félagi atvinnurekanda og neytendasamtökunum fengu framsögumann málsins til að taka í handbremsuna en með seiglunni og góðs stuðnings þingflokksins náðist að koma þeim í höfn.“

Þrátt fyrir alla ágallana á lagafrumvarpi ráðherra var það eindregin skoðun SVÞ að á heildina litið mundi samþykkt þess skila neytendum ábata. Mat ráðherra var að sá ábatinn gæti numið 240–590 milljónum króna á ári. SVÞ hafði ekki forsendur til að rengja það mat og ekki verður séð að það hafi FA heldur gert. Slíkur ábati hefði vissulega ekki verið nein himnasending en þó skref í rétta átt.

Nú hefur Alþingi fengið frumvarpinu lagagildi og virðist yfirlýsing FA hafa átt ríkan þátt í því að neytendaábatanum var að miklu leyti varpað fyrir róða.

Það var í framangreindu samhengi sem ég leyfði mér að vísa til svohljóðandi kínversks málsháttar í grein minni hinn 19. desember sl.: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Í efnissamhengi greinarinnar var merkingin sú að það skiptir í raun ekki máli þó þú berjist opinberlega fyrir tilteknum sjónarmiðum ef gjörðir þínar bera vott um að annarskonar hagsmunir ráði för.

Upptaka og glærur frá fræðslufundi um innflutt kjöt

Upptaka og glærur frá fræðslufundi um innflutt kjöt

Húsfyllir var á fræðslufundi Matvælastofnunar um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti þann 28. nóvember sl.

Upptöku frá fundinum má sjá hér:

Glærur fyrirlesara má nálgast hér fyrir neðan:

Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og staðan á Íslandi og í Evrópu

Brigitte Brugger og Vigdís Tryggvadóttir, MAST

Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja

Svava Liv Edgarsdóttir, MAST

Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja

Héðinn Friðjónsson, MAST

Eftirlit og viðurlög

Dóra S. Gunnarsdóttir, MAST

Fagnám verslunar og þjónustu

Fagnám verslunar og þjónustu

Nýtt nám fyrir starfsfólk í verslun hefur göngu sína í janúar 2020. Námið er 90 eininga nám á framhaldsskólastigi og er blanda af fjarnámi hjá Verzlunarskóla Íslands og vinnustaðanámi sem fer fram úti í fyrirtækjunum.

Umsækjendum með viðeigandi starfsreynslu úr verslun og þjónustu stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími. Raunfærnimat er ferli þar sem ákveðin aðferðarfræði er notuð til þess að meta og staðfesta færni án tillits til þess hvar hennar hefur verið aflað. Þeir sem fara í  raunfærnimat og fá hæfni sína staðfesta á formlegan hátt, geta látið staðar numið þar og nýtt niðurstöðuna til starfsþróunar. Aðrir, sem það kjósa, geta nýtt raunfærnimatið til styttingar á Fagnámi verslunar og þjónustu.

Sjá frekari upplýsingar hér á vef Stafsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks

Jólaverslun færist framar

Jólaverslun færist framar

Rætt er við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, á mbl.is nýverið þar sem haft er eftir honum að jólaverslun hafi færst sífellt framar síðustu ár.

„Það er já­kvætt að dreifa álag­inu, það er eng­in að kvarta yfir því, en það eru þess­ir stóru dag­ar sem spila stærstu rull­una,“ segir hann m.a.

Umfjöllunina í heild sinni má sjá á vef mbl.is hér.