Breyting á fjöldatakmörkunum taka gildi á miðnætti | COVID

Breyting á fjöldatakmörkunum taka gildi á miðnætti | COVID

Á MIÐNÆTTI TAKA GILDI HERTAR REGLUR UM SAMKOMUTAKMARKANIR

  • Í verslunum verður heimilt að taka á móti 50 manns í rými og til viðbótar fimm viðskiptavinum fyrir hverja 10 m 2 umfram 100 m 2 .
  • Þó mega verslanir að hámarki taka á móti 200 viðskiptavinum í rými.
  • Áfram skal leitast við að viðhafa 2 metra nálægðartakmörkun þar sem fólk staldrarvið í lengri tíma, svo sem í biðröðum á kassasvæðum.
  • Áfram er óskoruð grímuskylda í verslunum og verslunarmiðstöðvum.

Að öðru leyti skal á öllum vinnustöðum, s.s. á skrifstofum, og í allri starfsemi tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 10 einstaklingar inni í sama rými.

_________________________

Fyrir stundu var birt tilkynning á vef heilbrigðisráðuneytisins með fyrirsögnina COVID-19: Almennar samkomutakmarkanir hertar á miðnætti. Í tilkynningunni segir m.a.:

Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.

Í tilkynningunni er að finna drög að nýrri reglugerð um takmörkum á samkomum vegna farsóttar. Gengið er út frá því að hún verði birt í dag í Stjórnartíðindum og taki gildi á miðnætti.

Af lestri reglugerðardraganna verður ráðið að þær meginreglur muni gilda að fjöldasamkomur, þar sem 10 einstaklingar eða fleiri koma saman, séu óheimilar og tryggja skuli að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.

Í tilviki verslana er vikið frá meginreglunum að tvennu leyti: 

  1. Verslunum verður heimilt að taka við 50 manns í rými og til viðbótar 5 viðskiptavinum í viðbót fyrir hverja 10 m2 umfram 100 m2.
    Sú meginbreyting verður hins vegar að í stað þess að hámarksfjöldi viðskiptavina í rými nemi 500 viðskiptavinum mun hann nema 200 viðskiptavinum.
    Svo dæmi sé tekið verður unnt að taka á móti 50 viðskiptavinum í 90 m2 rými, 55 viðskiptavinum í 110 m2 rými, 100 viðskiptavinum í 200 m2 rými, 150 viðskiptavinum í 300 m2 rými og 200 viðskiptavinum í 400 m2 rými eða stærra.
  2. Óskoruð grímuskylda mun gilda í verslunum og verslunarmiðstöðvum.

SJÁ NÁNAR TILKYNNINGU FRÁ STJÓRNARRÁÐI ÍSLANDS

 

Könnun Stafræna Hæfniklasans og SVÞ um stafræna hæfni stjórnenda og fyrirtækja

Könnun Stafræna Hæfniklasans og SVÞ um stafræna hæfni stjórnenda og fyrirtækja

Félagsmenn SVÞ munu í dag fá senda könnun í tölvupósti um stafræna hæfni sem unnin er fyrir Stafræna Hæfniklasann í samstarfi við SVÞ.

Könnunin er byggð á spurningum þróuðum af Center for Digital Dannelse og byggja á DigComp módeli um stafræna hæfni sem er á vegum Evrópusambandsins.

Meginmarkmið könnunarinnar er að leggja mat á almenna stafræna hæfni stjórnenda og á hvaða sviðum er þörf á aukinni hæfni til að efla stafræna hæfni fyrirtækja og stjórnenda í verslun og þjónustu.

Þessi könnun er hluti af stærra verkefni þar sem megin markmið er að efla íslensk fyrirtæki, stjórnendur og starfsfólk í stafrænni hæfni og tryggja það að við séum meðal þeirra fremstu í heimi í nýtingu stafrænnar tækni til að tryggja samkeppnishæfni og lífsgæði.

Prósent sér um framkvæmd könnunar og fer eftir ströngum siðareglum ESOMAR sem settar eru af alþjóðasamtökum markaðsrannsóknarfyrirtækja þar sem sérstaklega er unnið eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Einn heppinn þátttakandi hlýtur 30.000 kr. bankagjafakort.

Fréttatilkynning: Vegna fréttaflutnings um hertar kröfur til skoðunar ökutækja

Fréttatilkynning: Vegna fréttaflutnings um hertar kröfur til skoðunar ökutækja

FRÉTTATILKYNNING

Að undanförnu hefur sú afstaða verið látin í ljós í almennri umræðu að bifreiðaskoðunarstöðvar beri ábyrgð á hertum kröfum við skoðun ökutækja. Hið rétta er að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið setur reglurnar og það er á ábyrgð Samgöngustofu að útfæra þær nánar í skoðunarhandbók, leiðbeiningarriti skoðunarmanna. Bæði ný reglugerð um skoðun ökutækja og drög að nýrri skoðunarhandbók endurspegla í grundvallaratriðum lágmarksreglur ESB um skoðun ökutækja.

Við undirbúninginn komu SVÞ athugasemdum margsinnis á framfæri, bæði við ráðuneytið og Samgöngustofu og lýstu því viðhorfi m.a. að af hálfu íslenskra stjórnvalda gætti tilhneigingar til að ganga lengra en raunverulega væri þörf á.

Telja SVÞ sig m.a. hafa komið því áleiðis að vanda verði útfærsluna og gæta þess að nýta svigrúm sem er til staðar til að milda áhrif hertra krafna.

Nánari upplýsingar veitir:
Benedikt S. Benediktsson
Lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu
Sími 864 9136

Jogging gallinn er jólagjöf ársins 2021 | Rannsóknarsetur verslunarinnar

Jogging gallinn er jólagjöf ársins 2021 | Rannsóknarsetur verslunarinnar

Verkefnið: Jólagjöf ársins endurvakið

Í ár ákváð Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) að endurvekja verkefnið Jólagjöf ársins sem legið hefur í dvala frá árinu 2015.

Verkefnið fór þannig fram að upplýsinga var aflað frá neytendum og verslunum um vinsælar sérvörur í aðdraganda jóla. Rýnihópur RSV kom svo saman og valdi jólagjöf ársins.

Í fréttatilkynningu frá RSV segir:

Áberandi samhljómur var í umræðu rýnihóps RSV í ár og þeim hugmyndum sem fram komu um jólagjöf ársins. Greinilegt er að ástand sem kórónaveirufaraldurinn hefur skapað undanfarin tvö ár hefur eitthvað um það að segja hvernig neysluhegðun er í aðdraganda jóla þetta árið. Tíðarandinn virðist kalla á aukna vellíðan. Tillögur rýnihópsins að jólagjöf ársins einkenndust af auknum þægindum og vellíðan, einhverju notalegu og kósý, aukinni samveru og flestar hugmyndir mátti beint eða óbeint tengja við heilsu, bæði andlega og líkamlega. Tíðarandinn kallar einnig greinilega á aukna umhverfisvitund en í umræðum rýnihópsins mátti líka greina samhljóm um mikilvægi meðvitaðra neysluhátta, að vörur hefðu notagildi og væri jafnvel hægt að endurnýta.

Notalegur fatnaður var það sem oftast bar á góma í umræðunum en það getur einmitt rímað við jólagjafaóskir neytenda skv. netkönnun Prósent. Líklega er það Covid ástandið og álagið undanfarin tvö ár sem gerir það að verkum að þægindi voru alsráðandi í umræðunum og aukin meðvitund um notagildi sem hafa haft áhrif á svarið við rannsóknarspurningunni í ár. En niðurstaðan er að jólagjöf ársins 2021 skuli vera; Jogging gallinn.

Jogging gallinn er vinsæll meðal neytenda, hann selst vel og fellur einstaklega vel að tíðarandanum. Jogging gallinn er bæði heimagalli en líka tískuvara. Hann er til á alla aldurshópa og öll kyn. Jogging gallinn hefur mikið notagildi, er þægilegur og kósý og fellur því einstaklega vel að tíðarandanum. Jogging gallinn hefur á síðustu árum notið aukinna vinsælda og þróast úr því að vera íþrótta- eða heimafatnaður yfir í að vera háklassa tískuvara.

En í dag má finna jogging galla frá flestum helstu tískuhúsum heims.

SJÁ NÁNARI FRÉTTATILKYNNINGU FRÁ RANNSÓKNARSETRI VERSLUNARINNAR

MYND FRÁ RSV

 

Sjálfbærnidagur atvinnulífsins: Eru viðskiptatækifæri í kolefnishlutleysi?

Sjálfbærnidagur atvinnulífsins: Eru viðskiptatækifæri í kolefnishlutleysi?

Samtök atvinnulífsins og EY á Íslandi taka höndum saman og setja á laggirnar árlegan Sjálfbærnidag atvinnulífsins þar sem fyrirtæki á Íslandi geta sótt sér nýjustu þekkingu sem nýtist þeim í rekstri út frá sjálfbærni og UFS viðmiðum.

Edward Sims, sjálfbærnisérfræðingur EY í Evrópu og aðalfyrirlesari Sjálfbærnidagsins segir m.a.; „Viðskiptavinir eru líklegri til að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Þessari þróun mun aðeins vaxa ásmegin“

Sjálfbærnidagurinn fer fram í fyrsta sinn 24. nóvember 2021 frá 09:00 – 12:30 með veglegri dagskrá og vinnustofu í Hörpu.
Í ár er sjónum beint að kolefnishlutleysi.

SMELLTU HÉR FYRIR NÁNARI DAGSKRÁ OG SKRÁNINGU

EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce skorar á evrópsk stjórnvöld

EuroCommerce, samtök smásölu- og heildverslunar í Evrópu, í samvinnu við UNI Europe, sem eru samtök launafólks í Evrópu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á evrópsk stjórnvöld að styðja við verslunarfyrirtækin með því að efla stafræna hæfni fyrirtækja og starfsfólks í verslunum. Skilaboðin bæði til Evrópusambandsins og ríkisstjórna í álfunni eru skýr:

Við höfum staðið vaktina í heimsfaraldri, nú er komið að ykkur að styðja verslunargeirann í stafrænni hæfni og umbreytingu.

Þetta er í fullkomnu samræmi við hvatningu SVÞ og VR til stjórnvalda um að styðja við íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra í þessari stóru umbreytingu. Eins og kunnugt er hafa þessi tvö samtök, ásamt Háskólanum í Reykjavík, leitað eftir stuðningi stjórnvalda við að koma á klasasamstarfi um eflingu stafrænnar hæfni. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að í framhaldinu komist á sem víðtækast og öflugast samstarf um eflingu stafrænnar hæfni í atvinnulífi og á vinnumarkaði almennt.

Í fréttatilkynningu EurocCommerce, sem lesa má í heild sinni hér, er m.a. haft eftir framkvæmdastjóra EuroCommerce, Christian Verschueren:

„Verslun snýst um fólk, þjónustu við fólk. Allir sem vinna í verslun hafa unnið hörðum höndum til að tryggja að neytendur hafi áreiðanlegt aðgengi að nauðsynjavörum nú í COVID-19 faraldrinum. Margir smásalar sem ekki selja matvöru hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af endurteknum og löngum lokunum í mörgum löndum. Faraldurinn hefur hraðað stafrænni umbreytingu og netsölu gríðarlega. Evrópusambandið og stjórnvöld í ríkjum Evrópu þurfa nú að hjálpa fyrirtækjunum okkar, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að byggja upp þá færni sem starfsfólki þeirra er nauðsynleg til að nýta sem best þessi stafrænu tól.”

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, eins og allir vita. Langflest fyrirtæki í verslun í Evrópu eru annað hvort lítil eða meðalstór og veita um 28 milljónum manna vinnu. Það skiptir því sköpum fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar hvernig henni tekst að aðlaga sig að þeim stafrænu umbreytingum sem eru þegar skollnar á allt í kring um okkur. Stjórnvöld, hvar sem er í Evrópu, geta ekki setið hjá á þess að koma að þessari vegferð með atvinnulífinu. Þessi skilaboð geta ekki verið skýrari.