02/01/2023 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Menntun
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu.
Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar n.k.
Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum;
Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.
Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:
- að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
- að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
- að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
- að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar
Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:
- að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
- samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.
Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
________________
Samkaup hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2022. F.v. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
01/12/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Verslun
Í árlegri könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar settu 55% neytenda bækur og spil á óskalistann sinn fyrir þessu jól.
Íslenskar bækur og spil! Jólagjöf ársins í ár er vinsæl meðal neytenda, selst alltaf vel fyrir jól og fellur einstaklega vel að tíðaranda sem kallar á aukinn léttleika og skemmtun. Jólagjöf ársins í ár fær okkur til að tala saman, spila saman og lesa saman sem hjálpar okkur að hlúa betur að hvort öðru og tungumálinu okkar.
Í frétt af vefsíðu RSV segir að eitt af árlegum verkefnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) er val á jólagjöf ársins. Tilgangur verkefnisins er að greina hluta af neysluhegðun landans í aðdraganda jóla sem og að vekja athygli á verslun í landinu.
Í fyrra var það jogging gallinn, en nú er komið að bókum og spilum.
SMELLTU HÉR til að lesa alla fréttina frá RSV
23/11/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Rúna Magnúsdóttir, markaðs- og kynningastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu tók á móti alþjóðlegri viðurkenningu WEF Women Economic Forum undir liðnum Excellece in Entrepreneurship fyrir störf sín við hátíðlega athöfn sem haldin var á Möltu laugardaginn 5.nóvember s.l.
World Economic Forum eða WEF „Excellence in Entrepreneurship“ viðurkenningin er veitt leiðtogum sem hafa staðið uppúr með sinni sérstöku sýn, áræðni, frumkvöðlastarfsemi og eru leiðtogar sem eru öðrum fyrirmynd, hvatning og leiðarljós í umræðu og fræðslu sem þarf til að leiða næstu framtíðarskref í meira meðvitaðri og valdefldandi leiðtogastörfum.
„Samtökin eru stolt af því að hafa meðal starfsfólks síns einstaklinga sem hafa skarað fram úr með þeim hætti sem Rúna hefur gert og óskum henni innilega til hamingju með viðurkenninguna“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ við þetta tækifæri.
Meðal þeirra sem hafa hlotið WEF viðurkenninguna til þessa má nefna:
H.E Marie-Louise Coleiro Preca, fyrrum forseti Möltu;
H.E. Laura Chinchilla Miranda, fyrrum forseti Costa Rica (2010-2014);
H.E. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti íslands (1980-1996);
H.E Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada
H.E. Julia Gillard, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu (2010–2013)
H.E. Maria Fernanda Espinosa Garces, forseti UN General Assembly, Ecuador
H.E. Marta Lucía Ramírez, varaforseti Kólumbíu
HE Dr Jehan Sadat, fyrrum forsetafrú Egyptalands
H.E. Dr. Gertrude I. Mongella, fyrrum forseti Tanzaníu
H.E. Cherie Blair, stofnandi, Cherie Blair Foundation Bretlandi
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500
andres(hja)svth.is
Fréttatilkynning – WEF viðurkenning 2022
16/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Lögfræðisvið SVÞ, Stjórnvöld
Um þessar mundir er frumvarp til fjárlaga 2023 til umfjöllunar á Alþingi. Því fylgir svokallaður bandormur sem inniheldur tillögur um breytingar á ýmsum skattalögum. Meðal þeirra atriða sem eru til umfjöllunar í bandorminum eru breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.
Næstu áramót taka gildi lög sem hafa það í för með sér að Evrópuskuldbindingar sem snúa að hringrásarhagkerfinu verða innleiddar í innlendan rétt. Í þeim felst m.a. að lögð verður skylda á innflytjendur og framleiðendur ýmissa vara til að fjármagna úrvinnslu úrgangs fleiri vöruflokka en áður. Jafnframt ber þessum aðilum að fjármagna sérstaka söfnun heimilisúrgangs en samhliða verða merkingar sorptunna samræmdar um allt land, þeim fjölgað, ásamt fjölgun íláta á grenndarstöðvum.
Af bandorminum leiðir að í farvatninu er umtalsverð hækkun úrvinnslugjalds sem er annars vegar er lagt á innflutning samhliða tollafgreiðslu vara og hins vegar á innlenda framleiðslu. Eru dæmi um að hækkun muni í tilviki nokkurra vöruflokka verða allt að þreföld. Grundvallast hækkunin á mati Úrvinnslusjóðs á væntum kostnaðarauka sem innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur í för með sér.
Rétt er að taka fram að frekari breytinga er að vænta á næstunni þar sem Evrópuskuldbindingarnar fela m.a. í sér skyldu aðildarríkjanna til að aðlaga gjaldhæð úrvinnslugjalds að endurnýtingar- og endurvinnslumöguleikum vara.
Skrifstofa SVÞ hyggst á næstunni boða til félagsfundar þar sem framangreindar breytingar og forsendur þeirra verða kynntar. Meira um það síðar.
Nánari upplýsingar veitir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, benedikt(hjá)svth.is, s. 864-9136.
14/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Verulegar breytingar á smásöluumhverfi nikótínvara (m.a. nikótínpúða), rafrettna og áfyllingar fyrir þær.
Upplýsingar frá lögfræðisviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Hinn 24. júní síðastliðinn voru gerðar töluverðar breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
Með breytingunum voru nikótínvörur * felldar undir löggjöf um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Undir lok ágústmánaðar setti heilbrigðisráðherra tvær reglugerðir sem útfæra breytingarnar nánar.
Í sem allra stystu máli munu smásöluaðilar þurfa að takast á við eftirfarandi meginbreytingar:
- Öllum þeim sem hyggjast halda áfram smásölu varanna eða hefja slíka sölu er skylt að sækja um sérstakt smásöluleyfi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hvern sölustað og mun kostnaður vegna hverrar leyfisveitingar nema 72.864 kr.
- Aðeins verður heimilt að selja í smásölu vörur sem hafa innflytjendur eða framleiðendur hafa tilkynnt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
- Einungis verður heimilt að selja nikótínvörur sem innihalda að hámarki 20 mg/g af nikótíni.
- Smásöluaðilar munu sæta markaðseftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stofnunin mun innheimta eftirlitsgjald í kjölfar eftirlitsferðar sem nemur 18.216 kr. á klst. auk tilfallandi kostnaðar á borð við ferðakostnað.
Eftirfarandi eru vefslóðir á þær reglugerðir sem hafa verið settar:
Til upplýsingar munu kröfur um merkingar varanna taka gildi hinn 1. desember nk. Þó hefur skylda til að tilgreina hlutfall nikótíns í mg/g og magn nikótíns í hverjum skammti eða púða, á einingapökkum og öllum ytri umbúðum nikótínvara, þegar tekið gildi.
Viðtakendur eru hvattir til að kynna sér efni reglugerðanna vel.
Búist er við því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun muni birta ýmsar upplýsingar á vefsvæði sínu, hms.is.
Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedik(hjá)svth.is, s. 864-9136.
* Vörur sem innihalda nikótín, hvort sem nikótínið er unnið úr tóbaki eða ekki, og varan inniheldur að öðru leyti ekki efni sem unnin eru úr tóbaki, t.d. nikótínpúði, en er ekki til innöndunar
05/09/2022 | Fréttatilkynningar, Fréttir
FRÉTTATILKYNNING
Neytendasamtökin, SAF – Samtök ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent erindi til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið er fram á að hann beiti sér fyrir niðurfellingu tolla sem lagðir eru á við innflutning á frönskum kartöflum.
Í ljósi þess að framleiðsla franskra kartaflna hefur verið hætt á Íslandi eru ekki lengur til staðar þær verndarforsendur sem liggja til grundvallar 46–76% verðtolli sem lagður er á við slíkan innflutning.
Hagsmunir neytenda, verslana og ferðaþjónustunnar fara saman þegar kemur að niðurfellingu tollanna. Niðurfellingin kemur neytendum til góða þar sem hún stuðlar að lægra vöruverði. Hún kemur versluninni til góða þar sem hún veitir henni færi á að kaupa franskar kartöflur frá fleiri ríkjum en þeim sem falla undir gildandi fríverslunarsamninga og stuðlar þannig bæði að aukinni verðsamkeppni og bættu framboði. Veitingamenn selja töluvert af frönskum kartöflum til viðskiptavina sinna og ætti niðurfellingin að veita þeim tækifæri til verðlækkana sem munu í einhverjum mæli bæta samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart erlendri.
Tolltekjur ríkisins af frönskum kartöflum virðast hafa numið um 300 millj. kr. á síðasta ári. Það nemur rúmum 7% allra tolltekna það ár en þó aðeins 0,04% heildarskatttekna ríkisins 2021. Það er ljóst að tekjurnar ríða ekki baggamuninn þegar að tekjuöflun ríkisins kemur. Hins vegar skiptir hver króna máli fyrir mörg heimili í landinu um þessar mundir og ætti niðurfellingin að hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun.
Samtökin hafa m.a. farið fram á að ráðherra svari erindinu og lýsi afstöðu sinni telji hann sér ekki fært að verða við beiðni samtakanna.
Síða 1 af 712345...»Síðasta »